Kreppa

Það eru nýir tímar og það er nú aldeilis gott að við ákváðum að koma heim frá Ástralíu í sumar, fyrr en áætlað var. Hefði ekki boðið í að vera föst hinum megin á hnettinum um þessar mundir, með verðlaus verðmæti. Nóg var nú krónan búin að falla þessa mánuði sem við dvöldum úti, okkur til mikilla vandræða...En já, góðærið er búið og kreppan er skollin á.

Smá update

Við vorum að koma úr fríi! Úff það er svo langt síðan ég skrifaði síðast... En allavega, við Brá kláruðum fyrri önnina 19. Apríl!!! Þá tók reyndar við smá tími sem við þurftum að spá og spegúlera í BS verkefni, og svo náttúrulega hvert ætti að fara í frí. Ákváðum að skella okkur til Cairns (og skiluðum verkefnaáætluninni í miðju sólbaði) sem er hérna í norður Queensland, og þar sem við lágum í sólbaði, snorkluðum með teiknimyndafiskum og kóralrifum, kíktum á regnskóganna og lékum okkur með krökkunum á 4 sundlaugarbökkum og yndislegum tropical ströndum. BARA FRÁBÆRT! Manni finnst nú bara hálfkalt að koma tilbaka, enda er komið haust hérna hjá okkur og við farin að þurfa að sofa með sængur...

Mig grunar...

...að vanti smá húmor í Ástralana. Hef samt ekkert meira fyrir mér í því.

Annars er brjálaður hiti hérna núna og varla rólfært á götum úti. Skýin og skúrirnir sem húkt hafa yfir okkur síðustu daga og vikur hafa ákveðið að yfirgefa svæðið, og hér erum við nú berskjölduð sólinni í allri sinni dýrð. Vifturnar allar á fullu og loftkælingin í óhófi þessa dagana.

Höfum það annars voða gott og höfum notað tækifærið til þess að fá smá lit. Orðið ansi mikið að gera í skólanum hjá okkur Brá, en við fórum í eitt miðannarpróf í síðustu viku og förum í annað næsta miðvikudag. Mikið að gerast í verkefnavinnu, en við erum eins og er að gera markaðsrannsókn fyrir veitingastað hér í nágrenninu fyrir kúrs um Markaðsrannsóknir og greiningu. Einnig erum við að vinna að verkefni með nokkrum kennurum í skólanum sem snýst um að afla upplýsinga frá International nemendum við skólann, gera athugun á því hvernig þeir upplifa námið hér og hverju er ábótavant. Eigum eftir að stýra rýnihópum og í lokin útbúa video presentation. Voðalega skemmtilegt! (og á eftir að lúkka vel á CV-inu)

Einnig erum við búnar að vera að spá í BS ritgerðinni sem við áætlum að skrifa í sumar (vetur hér), en hún kemur að öllum líkindum til með að taka á þremur sviðum innan viðskiptafræðinnar; Starfsmannasviði, Alþjóðasviði og Samningatækni. Mjög svo spennandi efni, en við eigum eftir að fínpússa aðeins objectivin og grindina áður en við hefjumst handa.

Gunni er ennþá að bíða eftir atvinnuleyfinu, en það er víst alveg bilað að gera hjá immigration um þessar mundir. Þeir segja þó að það verði afgreitt í síðasta lagi í byrjun mars. Á meðan notast hann við hina frábæru hnattvæðingu og hringir út til íslenskra viðskiptavina fyrir fyrirtæki heima. Hann er ennþá að bíða eftir tölvunni sinni (já Samskip klúðraði heldur betur sendingunni okkar), svo hann gengur hér um eins og særður grís að reyna að svala sköpunarþörfinni, sást til hans hér á dögunum með blað og blýant í hönd vongóður um að geta svalað þeirri þörf með öðrum hætti (þar til hann ákvað að hann væri nú enginn myndlistarmaður). Hausinn orðinn uppfullur af tónlist sem hann verður að koma frá sér. En tölvan er semsagt áætluð til landsins eftir rúmar 2 vikur núna, og Gunni er farinn að telja niður.

Af börnunum er allt gott að frétta; Sara blómstrar á leikskólanum og Birta og Arnór halda áfram að læra á ensku. Arnór er kominn ansi langt í stafrófinu og kominn með helling af orðaforða (alveg ótrúlega fljótur að pikka upp alla hluti hérna). Þau eiga vinkonu hérna í götunni sem heitir Cristine og er ósjaldan hérna hjá okkur ásamt því að mamma hennar hún Mary kíkir reglulega í kaffi (hún er frá Nýja Sjálandi en hefur búið hér í Ástralíu í mörg ár). Sara er eins og litla systir þeirra hér; lítur upp til Arnórs sem segir henni til, og sér oft ekki sólina fyrir henni Birtu sinni sem gætir hennar af kostgæfni. Birta vinnur sér líka inn vasapening með því að gæta snúllunnar 2-3 tíma á viku, og finnst það nú alls ekki leiðinlegt. Þau eru bara öll svo rosalega dugleg hérna í útlandinu!

 

Látum þetta duga í bili, biðjum  að heilsa ykkur öllum!

 

Sól og sumar takk!

Við erum flutt! Í annan bæ, í annað land, í aðra heimsálfu, og já hinum megin á hnöttinn.

Þrír fullorðnir ásamt þremur börnum þeirra ákváðu seint á síðasta ári að leggja nokkur lönd undir fót og flýja aukin veturharðindi á Íslandi, til Ástralíu.

Kvöddum Ísland á síðasta degi ársins 2007 og lentum í Brisbane að morgni 2. janúar eftir tveggja daga ferðalag (þetta er víst ekki alveg eins og að skreppa til Köben), og komum inn í mitt sumarið. Ferðalagið gekk alveg ótrúlega vel enda flugum við með alveg frábæru flugfélagi – Singapore Airlines. Það kom í ljós að hagkvæmasti ferðamátinn fyrir svona stórfjölskyldu og tilheyrandi farangur (sem hefur nú stóraukist í verðmæti sökum hárra yfirvigtstolla í London) var að taka limmósínu frá flugvellinum, svo ein slík var kölluð til sem keyrði okkur að áfangastað á Gold Coast.

Fyrstu vikurnar hér hafa einkennst af sumarfrísfílingi, enda voru krakkarnir í fríi frá skólum og leikskólum þar til nú í vikunni. Strandirnar sem eru í strætófjarlægð hafa verið heimsóttar allnokkru sinnum og ýmsir skemmtigarðar sem eru ófáir hér á þessu svæði; dýragarðar, vatnagarðar, Sea World...

Húsið okkar sem stendur á öryggisgirtu raðhúsakomplexi við rætur Bond háskólakampusins hefur allan þann útbúnað sem hægt er að hugsa sér, en hér er flottur sundlaugagarður með jaccuzi, sauna, gym, grillsvæði og afþreyingarherbergi. Svo ófáum stundum hefur einnig verið varið hér í garðinum í sól og sumaryl, þó svo að eitthvað hafi einnig verið um rigningar.

Á þessari önn sem nær fram í apríl erum við Brá í þremur fögum sem eru hvert öðru skemmtilegra, en við stöndum í hörðum samningaviðræðum í hverri viku, tileinkum okkur cross culture management og undirbúum markaðsrannsóknir. Mjög fínir kúrsar með afbragskennurum, sem hverjir um sig hafa víðtæka og alþjóðlega reynslu á sínum sviðum. Síðan skólinn byrjaði hjá okkur Brá hefur Gunni gengið með nafnbótina „au-pairinn“, enda hefur hann litið eftir krakkaskaranum á meðan við höfum sótt tíma.

Litla skottan okkar hún Sara Björt hóf leikskólagönguna um miðjan janúar á aðlögun einu sinni í viku en frá og með síðustu viku verður hún á leikskólanum fjóra daga í viku. Rosa fínn leikskóli (ABC Learning Center) með alveg frábæru starfsfólki.

Vikan var einnig viðburðarík hjá börnunum hennar Bráar en á miðvikudaginn var bið þeirra eftir að skólinn byrjaði á enda. Birta er hér í 5. bekk og Arnór í 1. bekk. Birta safnaði að sér vinkonum á fyrsta degi og bekkjafélagar hennar kepptust um að segja hverjum kennaranum eftir öðrum að hún væri frá Íslandi og héti „Berta“. Kennarinn hans Arnórs útbjó handa honum samskiptabók með myndum til að notast við þar til hann hefur náð betra valdi á enskunni. Hann er þó alveg ótrúlega duglegur að læra tungumálið og pikkar upp hvert orðið á fætur öðru, og kveður strætóbílstjórann með handabandi og „see-ya“. Birta hefur verið örlítið feimin við að tala enskuna en er nú orðin ólmari í að læra meira.

Við Gunni skiptumst á að fara með Brá og krökkunum í skólann fyrstu tvo dagana en á þriðja degi fannst Birtu kominn tími til að þau færu fylgdarlaus. Við biðum því öll eftir þeim í strætóskýlinu hérna fyrir utan að loknum skóladegi í gær þegar þau komu heim með skólabílnum ein síns liðs!

Allt er semsagt að falla í rútínu hérna hjá okkur í Oz og við hlökkum til að eyða árinu 2008 hér. Staðurinn er frábær og fólk alveg yndislegt og vinalegt. Samgöngur hér eru mjög fínar en við komumst allra okkar leiða með strætó. Hér er allt frekar afslappað en regluverk er þó mjög mikið og mun meira en þekkist á Íslandi.

Látum þetta duga í bili, en verðum með reglulegt „update“ hér af lífinu í Ástralíu.

Njótið vel!


Saumastofa í kjallarann

Jæja, nú hlýtur að vera kominn tími á nokkur orð, eða eru sjö mánuðir ekki annars ágætis pása eftir heilar þrjár færslur? En hvar skal byrja? Margt hefur aldeilis á dagana drifið frá því ,,hér um árið”; móðirin orðin önninni fróðari í viðskiptafræðum og unginn nær floginn úr hreiðrinu í millitíðinni. Hefur í það minnsta uppgötvað mátt og tilgang fótanna og skríður nú í gríð og erg um allt hús með mömmuna sveitta á hælunum, milli þess sem hann rís upp á tvær og kallar ,,mammamammaMAMMA! Skipst hefur á skinum og skúrum í stjórnmálum og kjaftasögur gengið kaupum og sölum á meðan móðirin hefur kokkað hvert dýrindismaukið eftir annað ofan í ungann og stofnað saumastofur í kjallaranum. En það er semsagt næsta mál á dagskrá; saumastofa í kjallarann og nýjasta tíska á teikniborðið. Og hana nú!

Innbrotsþjófur um miðja nótt

Hann braust reyndar ekki inn, heldur hafði lykil að útidyrunum. Þrusk heyrðist úr kjallarnum um eittleytið og spúsinn ákvað að það væri undarlegur tími fyrir einstæðu móðurina á efri hæðinni að vera að sýsla í geymslunni. Lagði við hlustir en þegar útihurðinni var skellt stökk spúsinn á fætur og greip þjófinn glóðvolgan fyrir utan hús. Spurði um deili á manninum. Hann kvaðst vera frændi konunnar uppi og gaf upp fullt nafn á sér þegar krafinn um það. Spúsinn herjaði frekar að manninum með spurningum og var hann frekar sannfærandi. Lagði heldur ekki á flótta, en hafði þó skilið eftir ljós í geymslunni hjá konunni sem var heldur undarlegt. Spúsinn velti því fyrir sér hvort hann ætti að vekja upp einstæðu móðurina til að fá staðfestingu á skyldleika mannsins. Spurði hann aftur að nafni. Fékk uppgefið fullt nafn aftur, sem var það sama og hann hafði gefið upp áður, og var sleppt úr "haldi".

Daginn eftir þegar spurð út í næturheimsókn frændans kom einstæða móðirin af fjöllum. Kannaðist hvorki við nafnið né lýsingu á manninum. Og við nánari eftirgrennslan í geymslunni sá hún að rótað hafði verið í kössum og pokum þar. Gat þó ekki séð hvort eitthvað hefði verið tekið, engum verðmætum þar að skipta hvort eð var.

Þetta er hið undarlegasta mál, og íbúar hússins íhuga nú lögreglurannsókn. Það verður í það minnsta skipt um lás í dag...


Föstudagstíðindi

Þá hefur það verið slegið og selt, hjónaleysin eru á leið á jólaglögg í kvöld. Búin að þreyfa mig áfram í fjósaaðferðum og orðin slarkfær á mjaltavélina. Unginn komin með pössun og móðirin sem hefur ekki fengið sér neðaníðí síðan um síðustu áramót hlakkar nú til að fá sér einn eða tvo í ölinu. Líka sagt skilið við baneitraðar baunasúpur og því orðin að mestu húsum hæf. Er reyndar ekki ennþá farin að passa í hátískuklæðin sem hanga í skápnum svo óléttubuxur verða að duga að sinni...

Komin í bloggið

Jæja þá er baunasúpan sem vinkonan kokkaði oní bloggarann í gær farin að segja til sín. Greinilegt að líkaminn er ekki vanur slíku innihaldi. Þeir sem þekkja til afleiðinganna hljóta að fyllast samúðar, líklega ekki gaman að vera nálægt mér núna.

Já ég sá ástæðu til að opna bloggsíðu...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband